Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði kannabisræktun á sumarhúsasvæði í Grímsnesi í gær. Upp komst um ræktunina þegar lögreglan var við hefðbundið eftirlit á svæðinu í fyrrinótt.
Miklar froststillur voru og rann lögreglan einfaldlega á lyktina af kannabisplöntunum.
Að sögn varðstjóra fór lögreglan aftur á svæðið í gær beið átekta eftir eiganda plantnanna og þegar hann kom á svæðið síðdegis í gær til að huga að framleiðslunni var hann handtekinn og plönturnar, um tuttugu stykki, haldlagðar. Maðurinn játaði að standa að ræktuninni og telst málið upplýst.