Ríkislögreglustjóri auglýsti í gær tvær stöður lögreglumanna á Selfossi til styrkingar löggæslu í Árnessýslu yfir sumartímann.
Um era ð ræða tvö störf á tímabilinu 16. maí til 15. september en einnig voru auglýstar sumarafleysingastöður lögreglumanna og rannsóknarlögreglumanns.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við sunnlenska.is að með þessari styrkingu verði fimm lögreglumenn á vakt í sumar.
“Það er sá lágmarksfjöldi sem við teljum þurfa að vera hverju sinni og ekki síst þessa þyngstu mánuði ársins. Að auki munum við bæta inn aukamannskap um helgar eftir því sem verkefni gefa tilefni til,” sagði Oddur en þessu til viðbótar þessu verða þrír nemar frá Lögregluskóla ríkisins við starfsnám í sumar líkt og undanfarin ár.
“Þeir munu bæði fá leiðsögn við almenna löggæslu og í rannsóknardeild. Á komandi hausti stefnum við síðan að því að hafa fjóra menn á vakt í stað þriggja eins og var á haustmánuðum síðasta árs,” sagði Oddur ennfremur.