Lokað milli Víkur og Klausturs

Veginum milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var lokað kl. 12:30 vegna öskufalls. Vestlæg átt er ríkjandi á Eyjafjallajökli og því má búast við öskufalli á svæðum austan gosstöðvarinnar.

Ekki kom til frekari rýmingar við Markarfljót í nótt þó tvö hlaup hafi komið í nótt frá Gígjökli. Björgunarsveitarmenn segja nóttina hafa verið rólega en tólf manns voru við eftirlit í nótt.

Töluvert hefur samt gengið á og er Þjóðvegur 1 farinn á 400 metra kafla fyrir austan Markarfljótsbrú. Eins er skarð í veginum fyrir austan Seljalandsá. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Þverá sem er austan við Hvolsvöll og að austanverðu er lokað við Þorvaldseyri.

Hálfum kilómetra fyrir innan Bleiksá í Fljótshlíð er vegurinn ófær á kafla.

Veðurspá gerir ráð fyrir vestanátt fram eftir degi og snýst síðan í hvassa norðanátt á gossvæðinu í kvöld. Aska gæti því fallið sunnan jöklanna í kvöld og nótt. Askan er mjög fín og hefur fínleika hennar verið líkt við hveiti og sykur.

Fyrri greinNjálumót í Þórbergssetri í kvöld
Næsta greinÖskufallsspá undir Eyjafjöllum