Í nýlegri úttekt Landlæknisembættisins á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri kemur fram að aðstæður þar séu ekki viðunandi fyrir veikt fólk.
Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá embætti Landlæknis, segir að velferðarráðuneytið hafi sett fram ákveðin viðmið um húsnæði hjúkrunarheimila, um einbýli fyrir hvern og einn íbúa hjúkrunarheimilisins. Auðvitað geri embætti Landlæknis sér grein fyrir því að þetta sé uppbygging sem krefjist tíma til að laga.
Um helmingur íbúa deilir herbergi. Til að unnt sé að breyta tvíbýli í einbýli á Kumbaravogi þarf, auk tímans, fjármagn. Í ábendingu endurskoðanda Kumbaravogs til Ríkisendurskoðanda er greint frá því að gengið hafi verið á alla sjóði sem heimilið hafi haft yfir að ráða frá 2008 til 2011.
Engir fjármunir séu eftir og tap síðustu síðustu fimm ára eru tæpar 70 milljónir króna. Að sögn Guðna Kristjánssonar, forstöðumanns Kumbaravogs, er útlit fyrir að loka þurfi heimilinu að ári liðnu ef fer sem horfir.