Hjónin Unnur Ósk Magnúsdóttir og Gústaf Lilliendahl hafa ákveðið að loka hárgreiðslustofunni Stofunni á Selfossi og flytja á vit nýrra ævintýra í Svíþjóð.
„Það fylgja þessu blendnar tilfinningar, sérstaklega í garð viðskiptavinanna. Við erum með góðan kúnnahóp hérna og ég er búinn að vera að klippa á Selfossi í átta ár þannig að maður er búinn að vera með hendur í hári ansi margra hér á þeim tíma,“ sagði Gústaf í samtali við sunnlenska.is en þau Unnur keyptu Stofuna árið 2009.
„Við munum loka Stofunni á fimmtudaginn í næstu viku, þann 16. maí og viljum koma á framfæri kæru þakklæti til viðskiptavina okkar fyrir samfylgdina. Við metum það mikils hvað við höfum haft trygga viðskiptavini hjá okkur,“ segir Gústaf.
Hann hefur þó ekki lagt skærin á hilluna því að í vor bauðst honum vinna hjá Larsson & Lange sem er fremst á sviði hártísku í Svíþjóð og rekur þar átta hárgreiðslustofur.
„Við fórum út um síðustu helgi að skoða okkur um auk þess sem ég fór í hæfnisprufu en þessi stofa er leiðandi á sínu sviði í Svíþjóð og gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna. Okkur leist mjög vel á okkur þarna og ég verð að vinna hjá Larsson & Lange í Lundi til að byrja með,“ segir Gústaf.
Þau Unnur eiga tvær dætur og segir Gústaf að það sé mjög spennandi fyrir fjölskylduna að koma sér fyrir á nýjum stað. „Þetta verður ævintýri og við hlökkum mikið til að reyna fyrir okkur á nýjum slóðum.“