Í ljósi þess að upp hefur komið samfélagssmit COVID-19 á Íslandi og lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna þá hefur framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands tekið þá ákvörðun að frá og með í kvöld, 6. mars, verði allar legudeildir HSU lokaðar gestum allan sólarhringinn nema í sérstökum undantekningatilvikum.
Þetta er gert með hagsmuni skjólstæðinga í huga, þ.e.a.s. til að vernda viðkvæma einstaklinga.
Framkvæmdastjórn HSU hefur sömuleiðis tekið þá ákvörðun að loka hjúkrunardeildum stofnunarinnar fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með laugardeginum 7. mars þar til annað verður formlega tilkynnt.
Íbúar hjúkrunardeilda HSU eru flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og eru því í aukinni hættu á því að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.
Ákvörðunin tekin með velferð íbúa að leiðarljósi
Í tilkynningu á heimasíðu HSU segir að leita þurfi allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af veirunni. Ákvörðunin er tekin með velferð þeirra að leiðarljósi og er beðið um að fólk að sýni ákvörðuninni virðingu og skilning.
„Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars,“ segir í tilkynningunni frá HSU.
Boðið verður upp á tæknilausnir eins og Skype til að ættingar og vinir geti áfram verið í samskiptum við skjólstæðinga legudeilda og hjúkrunardeilda.
Auk ofangreinds verður umferð allra annarra en nauðsynlegs starfsfólks takmörkuð inn á legu- og hjúkrunardeildir.