Lægðin sem ganga mun yfir landið í nótt og á morgun mun hafa víðtæk áhrif á landinu og vegna þess mun skólastarf og önnur þjónusta skerðast. Rauð viðvörun er í gildi á Suðurlandi milli kl. 4 og 8:30 í fyrramálið.
ÁSAHREPPUR
Allt skólahald leik- og grunnskóla fellur niður, bæði á Laugalandi og Hellu. Aðrar stofnanir sveitarfélagsins verða lokaðar til hádegis en staðan verður endurmetin eftir því sem fram vindur. Snjómokstri í þéttbýli og á heimreiðum verður ekki sinnt fyrr en veðrið gengur niður.
ÁRBORG
Skólahald fellur niður í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Stekkjaskóla, Sunnulækjarskóla og Vallaskóla. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Allar stofnanir sveitarfélagsins, þar með taldir leikskólar, verða lokaðar til klukkan 12 en staðan verður metin frekar með morgninum. Fjölbrautaskóli Suðurlands verður lokaður og kennsla eingöngu í fjarnámi. COVID-19 sýnatökur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands frestast og fara fram í bílakjallara Kjarnans kl. 13-15. Akstur fellur niður með Árborgarstrætó en á mánudagsmorgun verður metið hvort og hvenær hægt verður að hefja akstur fyrir daginn.
BLÁSKÓGABYGGÐ
Allt skólahald leik- og grunnskóla fellur niður, bæði á Laugarvatni og í Reykholti. Aðrar stofnanir sveitarfélagsins verða lokaðar til hádegis. Gildir það um íþróttamiðstöðvar, mötuneyti og gámasvæði. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Snjómokstri í þéttbýliskjörnum og á heimreiðum verður ekki sinnt fyrr en veðrið gengur niður.
FLÓAHREPPUR
Skrifstofa Flóahrepps verður lokuð a.m.k. til klukkan 12:00. Foreldrar barna í grunn- og leikskóla eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum frá skólastjórnendum. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Snjómokstur mun ekki hefjast fyrr en veðrið gengur niður. Mikil áhersla er lögð á að umferð sé algerlega í lágmarki því það flýtir fyrir því að leiðir opnist.
GRÍMSNES- OG GRAFNINGSHREPPUR
Leik- og grunnskóladeild Kerhólsskóla verða lokaðar. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Íþróttamiðstöðin Borg, skrifstofa hreppsins og áhaldahús sveitarfélagsins verða lokuð allan daginn.
HVERAGERÐI
Leikskólar Hveragerðisbæjar og grunnskólinn verða lokaðir allan daginn. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Allar stofnanir bæjarins verða lokaðar til kl. 12:00 og eru íbúar beðnir um að fylgjast með tilkynningum um opnun þeirra á heimasíðu bæjarins og á Facebook.
HRUNAMANNAHREPPUR
Allt skólahald í Flúðaskóla fellur niður og leikskólinn Undraland á Flúðum verður lokaður. Nokkrir nemendur og starfsfólk Undralands hafa fengið jákvætt úr Covid-heimaprófum um helgina og fólk beðið um að fara vel með sig og gæta að sér – ekki síður en lausamunum. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Tekin verður ákvörðun um hádegi hvort hægt verður að opna íþróttahúsi, tækjasal og sundlaug seinnipartinn.
RANGÁRÞING EYSTRA
Allt skólahald fellur niður í Hvolsskóla og Leikskólanum Örk. Aðrar stofnanir Rangárþings eystra verða lokaðar til kl. 12:00. Staðan verður endurmetin eftir því sem fram vindur og íbúar beðnir um að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu sveitarfélagsins sem og á Facebook. Sýnatökur vegna COVID-19 á Hvolsvelli falla niður.
RANGÁRÞING YTRA
Allt skólahald leik- og grunnskóla fellur niður, bæði á Laugalandi og Hellu. Aðrar stofnanir sveitarfélagsins verða lokaðar til hádegis en staðan verður endurmetin eftir því sem fram vindur. Snjómokstri í þéttbýli og á heimreiðum verður ekki sinnt fyrr en veðrið gengur niður.
SKEIÐA- OG GNÚPVERJAHREPPUR
Kennsla fellur niður í Þjórsárskóla, Leikskólinn Leikholt verður lokaður og ekki er gert ráð fyrir að opið verði á skrifstofu sveitarfélagsins. Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður.
ÖLFUS
Öll tónlistarkennsla á vegum Tónlistarskóla Árnesinga fellur niður. Íþróttamiðstöðin verður lokuð til kl. 12:00. Herjólfur mun ekki sigla á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, hvorki á mánudag eða þriðjudag. Sýnatökur vegna COVID-19 í Þorlákshöfn falla niður.
STRÆTÓ
Allar morgunferðir Strætó munu falla niður.
VEGLOKANIR
Smelltu hér fyrir veglokanir.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem nánari upplýsingar berast. Tilkynningar má senda á netfrett@sunnlenska.is.
Beiðnum um aðstoð skal beint í síma 112 og verða svæðisstjórn björgunarsveita og aðgerðastjórn almannavarna á vaktinni.