Lokahögg skógar í Hrunamannahreppi

Það er ekki oft sem að lokahögg skógar hefur farið fram á Íslandi en nú er unnið að því í Ásgerði í Hrunamannahreppi.

Frá áramótum hefur staðið yfir skógarhögg í Ásgerði en verið er að fella asparskóg sem plantað var í árið 1993. Þetta er ekki grisjun, heldur lokahögg, en asparreiturinn sem verið er að höggva er 0,8 ha að stærð.

Áætlað fellt viðmagn er 230 m3, sem gerir 14 rúmmetra árlegan viðarvöxt á hektara á ári. Að sögn Björns Bj. Jónssonar, hjá Suðurlandsskógum, er þetta er talsvert yfir væntingum en geta verður þess um leið að aspirnar standa þarna á frjóu landi, með miklum uppsöfnuðum næringarforða sem hefur orðið til á löngum tíma. Meðalþvermál á trjábolum er 15.8 cm og meðalhæð trjáa er 13,5 metrar en 2.800 tré eru á hektara.

Timbrið sem fellur til í þessu skógarhöggi verður notað í ýmsa timburvinnslu.

Strax næsta sumar er reiknað með að upp komi nýir asparteinungar á þessu svæði, sem skilar nýjum skógi sem verður tilbúinn til fellingar innan 15 ára. Þannig má ná nokkrum uppskerum á þessari öld í eina og sama skóginum án þess að til komi nýjar gróðursetningar.

„Hér er orðin til eilífðarvél skógar,“ segir Björn, en teinunguinn sem kemur upp af rótum felldra aspa verður mjög þéttur. Reikna má með um 50 þús teinugnum per hektara. Þeim verður að fækka niður í ca. 5.000 innan 5 ára. Það verður gert með kjarrsög.

Ef teinungunum verður ekki fækkað verður þvermálsvöxtur hvers teinungs afar lítill og því viðarmyndun í hverjum stofni mjög takmörkuð.

Fyrri greinKettirnir hans Ólafs fundnir
Næsta greinAnthony Karl setti HSK met