Lokanir vegna veðurs

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegna slæmrar veðurspár mun Sundhöll Selfoss loka kl. 14:00 í dag mánudaginn 7. desember. Sundlaug Stokkseyrar mun vera lokuð í dag.

Báðar laugarnar ættu að opna aftur á venjulegum tíma á morgun. Fólk er beðið að fara varlega og vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Í Flúðaskóla verður heimakstri nemenda flýtt og allir sendir heim kl. 12. Skólaselið er lokað. Nemendur fá hádegismat áður en þau fara heim.

Aðalfundi Bókabæjanna austanfjalls sem halda átti í Ráðhúsi Árborgar í dag kl. 17:30 hefur verið frestað.

Öllum íþróttaæfingum hjá Hamri í Hveragerði og öllum æfingum hjá Umf. Selfoss hefur verið aflýst í dag.

Heimferð úr Laugalandsskóla verður flýtt í dag til 11:15 í stað 12:00. Nemendur fá að borða áður en lagt verður af stað heim.

Heimakstri í Flóaskóla verður flýtt um klukkustund, til kl. 11:00 í dag í stað 12:00. Það verður ekki boðið upp á tómstundaakstur á Selfoss í dag.

Vinnumálastofnun Suðurlandi mun loka frá klukkan 12:00 í dag vegna veðurs.

Kennsla fellur niður í Tónlistarskóla Árnesinga frá kl. 12:00 í dag.

Vegna slæmrar veðurspár verður röskun á starfsemi Sveitarfélagsins Árborgar í dag. Skólaakstur í Árborg verður með breyttu sniði og verður börnum sem fá skólaakstur ekið heim í hádeginu. Síðasta ferð í akstursþjónustu vegna fatlaðra verður einnig í hádeginu. Öll kennsla í grunnskólum fellur niður eftir hádegi. Óskað er eftir að foreldrar sæki börn á leikskóla og skólavistun í hádeginu, þau börn sem ekki verða sótt verða í öruggri gæslu starfsmanna, en gera má ráð fyrir að ekkert ferðaveður verði þegar líður á daginn og að ekki verði unnt að halda götum opnum.

Eftirfarandi stofnanir verða lokaðar eftir hádegi: Sundhöll Selfoss, Sundlaug Stokkseyrar, bókasöfnin á Eyrarbakka, Selfossi og Stokkseyri, Kotið, VISS, gámasvæði, dagdvalir í Vallholti og Grænumörk, skrifstofa framkvæmda- og veitusviðs, íþróttahús Vallaskóla og íþróttahúsið Baula. Gera má ráð fyrir að þjónusta vegna snjómoksturs falli niður á meðan versta veðrið gengur yfir. Mokstur mun hefjast á ný þegar veðrið gengur niður og eru íbúar hvattir til að sýna þolinmæði.

Matvælastofnun vill benda öllum dýraeigendum á að huga að dýrum sínum í óveðrinu. Dýrum á útigangi skal koma í hús ef mögulegt er, eða að öðrum kosti í skjól eftir fremsta megni. Færa þarf dýr á örugg landsvæði ef einhver hætta er á að þau geti hrakist undan óveðrinu fram af klettum eða í ár, vötn, sjó eða aðra hættu. Gæta þarf sérstaklega að því að fjarlægja eða festa alla lausa hluti í kringum dýrin, því fljúgandi hlutir geta bæði valdið ofsahræðslu og beinum skaða. Mjög varasamt er að flytja hestakerrur í miklu hvassviðri. Kattaeigendur eru hvattir til að halda heimilisköttum inni þangað til óveðrið gengur yfir. Um leið og veður lægir og talið er óhætt að vera á ferli eru dýraeigendur hvattir til að huga eins fljótt og auðið er að dýrum sínum.

Allar starfstöðvar HSu verða opnar í dag samkvæmt þeim opnunartíma sem gildir á HSU, en íbúar Suðurlands eru beðnir um að fylgjast með tilkynningu almannavarna eftir hádegi. Ef spár ganga eftir er mælst til þess að íbúar bíði með að leita til HSu nema að brýna nauðsyn beri til. Hægt er að afbóka tíma eftir hádegi, kjósi fólk það og fá nýjan tíma við fyrsta tækifæri. Opið verður fyrir símaþjónustu á öllum heilsugæslustöðvum HSu eftir hádegi. Vaktsímanúmer HSu eftir kl. 16 er í síma 1700. Í neyðartilfellum er ávallt hægt að hringja í síma 112.

Snyrtistofan Eva í Miðgarði á Selfossi lokar kl. 14:00 í dag.

Landsbankinn lokar öllum útibúum sín klukkan 13:00 í dag vegna veðurs og Kjarval í Þorlákshöfn ætlar að loka klukkan 14:00.

Ekkert verður af bingói hjá Félagi eldri borgara í Ölfusi í kvöld.

Selfossbíó verður lokað í dag vegna veðurs. Þar verður opnað aftur um leið og stormurinn hefur farið yfir.

FRÉTTIN VERÐUR UPPFÆRÐ. SENDIÐ TILKYNNINGAR Á NETFRETT@SUNNLENSKA.IS

Fyrri greinBangsímon dansaði og söng
Næsta greinÓvissustigi lýst yfir vegna óveðurs