Sjálfstæðisflokkurinn tapaði rúmlega 6% fylgi í Suðurkjördæmi þannig að Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, missti sitt þingsæti. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna nú.
Lokatölur í Suðurkjördæmi bárust klukkan rúmlega sex í morgun. Alls greiddu 28.910 atkvæði og var kjörsókn 79,96%, örlítið betri en í síðustu þingkosningum þegar 78,5% nýttu atkvæðisrétt sinn. Auðir seðlar voru 754 eða 2,6% og ógildir 106, eða 0,4%.
Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 18,65% og tvo þingmenn kjörna en flokkurinn fékk örlítið minna fylgi en í síðustu kosningum.
Miðflokkurinn kom sterkur inn í Suðurkjördæmi með 14,26% atkvæða og einn þingmann kjörinn.
Flokkur fólksins styrkti stöðu sína mikið frá síðustu kosningum og bætti fylgi sitt um rúm 5%, fékk 8,94% atkvæða og einn mann kjörin. Samfylkingin og Vinstri grænir bættu einnig við sig fylgi og fá einn þingmann hvor flokkur.
Píratar töpuðu rúmlega 5,7% af fylgi sínu og misstu sinn kjördæmakjörna þingmann, en miðað við nýjustu tölur er uppbótarþingmaður Sunnlendinga Pírati.
Björt framtíð missti nær allt fylgi sitt í kjördæminu og fylgistap Viðreisnar var svipað, og missti Viðreisn þingmann sinn í kjördæminu.
- Páll Magnússon, Sjálfstæðisflokki
- Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki
- Birgir Þórarinsson, Miðflokknum
- Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki
- Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri græn
- Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu
- Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki
- Karl Gauti Hjaltason, Flokki fólksins
- Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki
- Smári McCarthy, Pírötum