Tveir sérfræðingar á vegum Evrópusamtaka jarðvanga (EGN-European Geopark Network) heimsóttu Jarðvanginn Kötlu í byrjun júlí.
Um var að ræða tvo jarðfræðinga sem ferðuðust um svæði sveitarfélaganna þriggja Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps og komu þeir víða við í ferð sinni um sveitarfélögin.
Erindi þeirra var að taka út svæðið sem jarðvangurinn Katla nær yfir með tilliti til þeirra krafa sem EGN leggur upp með að sérhver jarðvangur þurfi að uppfylla og meta hvort að hann uppfylli þær.
Þessi ferð var lokaáfangi í því umsóknarferli sem hófst síðastliðið haust um inngöngu Jarðvangsins Kötlu (Katla Geopark) inn í Evrópusamtökin. Undirbúningsnefnd jarðvangsins hefur umsjón með umsóknarferlinu en í nefndinni sitja fulltrúar sveitarfélaganna þriggja, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps, auk fulltrúa frá Háskólafélagi Suðurlands og Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands.
Aðalfundur EGN verður haldinn í Noregi í september og þá kemur í ljós hvort að jarðvangurinn hlýtur inngöngu á þessu ári.