Umhverfisstofnun auglýsti lokun á svæðinu við Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi þann 16. mars síðastliðinn, í tvær vikur. Ljóst er að ekki er raunhæft að opna svæðið strax vegna aurbleytu og slæms ástands göngustígs.
Stofnunin hefur ráðið landslagsarkitekt til að meta til hvaða aðgerða nauðsynlegt er að grípa til að geta opnað svæðið aftur. Þegar tillögur fagaðila liggja fyrir um nauðsynlegar úrbætur mun Umhverfisstofnun í samráði við landeigendur og sveitarfélagið Skaftárhrepp fara í nauðsynlegar aðgerðir til að hægt sé að opna svæðið fyrir gestum.
Fjármagni hefur verið úthlutað úr landsáætlun til bráðaaðgerða á göngustígum en fagaðila verður einnig falið að gera tillögur að varanlegum lausnum á göngustígum og stýringu á gangandi umferð um svæðið. Lögð verður áhersla á að innviðir falli vel að landslaginu og notast við besta fáanlega efni sem hentar svæðinu með tilliti til verndunar svæðisins, veðráttu og fjölda gesta.
Umhverfisstofnun hefur því ákveðið að framlengja lokunina við Fjaðrárgljúfur um níu vikur að höfðu samráði við sveitafélagið Skaftárhrepp, landeigendur, hagsmunaaðila og með staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um náttúruvernd. Svæðið verður opnað um leið og bráðaaðgerðum er lokið eða eigi síðar en 1. júní næstkomandi.
Stofnunin biður ferðaþjónustuaðila að miðla þessum upplýsingum til viðskiptavina og brýna mikilvægi þess að lokanir á náttúruverndarsvæðum séu virtar. „Ferðaþjónustan og stofnanir sem fara með umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða þurfa að standa saman vörð um náttúruna,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.