Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, lögreglustjórinn á Austurlandi, lögreglustjórinn á Suðurlandi og Ríkislögreglustjóri hafa ákveðið að gera breytingar á lokunarsvæðinu umhverfis Holuhraun.
Nýja lokunarsvæðið nær 20 m út frá norður jaðri nýja hraunsins, að Dyngjujökli í suðri, að farvegi Jökulsár á Fjöllum í austri og að vestustu kvíslum Jökulsár á Fjöllum í vestri. Meðfylgjandi kort sýnir mörk lokunarsvæðisins.
Ákvörðunin er tekin út frá hættumati Veðurstofu Íslands þar sem fjallað er um hættur á svæðinu. Þar leggur Veðurstofa Íslands einnig til að farið verði í mótvægisaðgerðir til að auka öryggi almenningis í nágrenni hins nýja lokunarsvæðis.
Lögreglan í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð mun vera með viðveru á svæðinu til þess að gæta öryggis og vinna náið með vakt Veðurstofunnar. Þá er stefnt að því að koma upp frekari mælibúnaði sem tengdur er vöktunarkerfi Veðurstofunnar og auka þannig vöktun á svæðinu svo gefa megi út viðvaranir verði talin ástæða til.
Vatnajökulsþjóðgarður mun hnitsetja og merkja áhugaverða útsýnisstaði fyrir ferðamenn, þar sem aðgengi er auðvelt og fljótlegt að rýma svæðið ef ástæða verður til.