Lóreley Sigurjónsdóttir, einkaþjálfari í Hveragerði, gefur kost á sér í 4. sætið á framboðslista Framsóknar í Hveragerði fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.
Hún segir í tilkynningu að hún hafi tekið þessa ákvörðun eftir nokkra umhugsun en hún vilji leggja sitt af mörkum við að betrumbæta samfélagið í Hveragerði í samvinnu við bæjarbúa.
Lóreley er fædd og uppalin á Dalvík og bjó þar mest af til ársins 2006. „Árið 2006 var ég svo heppin að kynnast Hvergerðingnum Arnari Inga Ingólfssyni á Þjóðhátíð og fluttum við saman í Hveragerði árið 2008. Við erum foreldrar þriggja dætra, Ellenar Helgu, Rakelar Díu og Ellýjar Óskar,“ segir hún.
Lóreley er menntaður einkaþjálfari, Zumba kennari, Foam Flex kennari og hefur að auki sótt fjölda námskeiða sem snúast að bættri heilsu, bæði líkamlega og andlega. Hún stofnaði og hefur rekið fyrirtækið Fitness bilið frá árinu 2012. Þar er lögð áhersla á alhliða hreyfingu sem hentar fólki á öllum aldri.
„Fyrirtækið hefur fengið frábærar viðtökur Hvergerðinga og þar ber heilsubærinn Hveragerði nafn með rentu. Það kemur því kannski ekki á óvart að íþrótta- og forvarnastarf er mér hugleikið. Ég vill tryggja öflugt og fjölbreytt atvinnulíf með heilbrigðri samkeppni. Framúrskarandi skólasamfélag, heilsueflandi samfélag og tryggja velferð eldri borgara. Aukin lífsgæði með betra og streituminna samfélagi. Loftslags og umhverfismál þarf stöðugt að hafa í huga. Uppbyggingu sveitarfélagsins með áherslu og sérkenni bæjarins. Góða heilbriðgisþjónustu fyrir alla. Lýðræði og gagnsærri stjórnsýslu. Hveragerði er góður bær en alltaf má gera betur,“ segir Lóreley í tilkynningu sinni.