Lóurimi valin skemmtilegasta gatan

Lóurimi var valin skemmtilegasta gatan í Árborg á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi sem haldin var um síðustu helgi.

Það er Knattspyrnufélag Árborgar sem stendur að hátíðarhaldinu í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg. Guðjón Bjarni Hálfdánarson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að hátíðin hafi heppnast gríðarlega vel og íbúar hafi tekið virkan þátt í hátíðarhöldunum.

„Morgunverðurinn var fjölmennur eins og alltaf og það hafa líklega aldrei verið fleiri á sléttusöngnum. Auk þess buðum við upp á tónlistarviðburði í hátíðartjaldinu þrjú kvöld í röð og þær uppákomur heppnuðust allar frábærlega og gestir okkar voru allir til fyrirmyndar,“ sagði Guðjón og bætti við að skreytingakeppnin hafi líklega aldrei verið harðari.

„Það er gaman að sjá hvað fólk er duglegt að leggja mikið í skreytingarnar. Það eru nokkrar götur í bænum sem hafa tekið þetta með trompi mörg ár í röð en núna bættust margar götur við af miklum krafti. Lóuriminn var valin skemmtilegasta gatan en þar var frábær stemmning alla hátíðardagana. Gula hverfið var valið skemmtilegasta hverfið en íbúar í því tóku vel við sér í ár og besta skreytingin var svo hjá Ingu Birnu og Viðari í Baugstjörn 32, frumleg og flott skreyting,“ sagði Guðjón Bjarni ennfremur.

„Ég verð líka að hrósa drengjunum mínum í knattspyrnufélaginu sem lögðu mikið á sig um helgina og ég vona að íbúar bæjarins kunni að meta það og launi okkur með stuðningi í þeim leikjum sem við eigum eftir í sumar,“ sagði Guðjón, en auk þess að stýra hátíðarhöldunum er hann þjálfari meistaraflokks Árborgar.

Fyrri greinSpennandi vetur framundan í grunnskólunum
Næsta greinÞórir ráðinn formaður fagráðs handboltans á Selfossi