Stjórn Dvalarheimilisins Lundar samþykkti á fundi sínum í morgun að ganga til samninga við verktakafyrirtækið Smíðanda á Selfossi vegna byggingar nýju deildarinnar við Lund.
Smíðandi átti lægsta tilboðið þegar verkið var boðið út á sínum tíma. Fyrirtækið hefur nú skilað inn öllum umbeðnum gögnum og verður samið við það um framkvæmdina.
Að sögn Björgvins G. Sigurðssonar, sveitarstjóra Ásahrepps og stjórnarmanns í stjórn Lundar, er þetta mikill áfangi og í kjölfarið hefjist framkvæmdir við Lund.
„Þar með mun þetta mikilvæga samfélagsverkefni halda áfram, en byggingin er stór liður á fjárhagsáætlun beggja sveitarfélaganna sem reka Lund á næstu tveimur árum. Lundur er sérstaklega vel rekið dvalar- og hjúkrunarheimili sem mikill sómi er að fyrir svæðið. Með nýju deildinni verður þetta fyrirtaks heimili ennþá betra í stakk búið til að veita þá bestu þjónustus sem völ er á gagnvart gamla fólkinu,“ segir Björgvin.