Alla miðvikudaga í september mun Ferðafélag Íslands standa fyrir lýðheilsugöngum um allt land.
Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga vítt og breitt um landið og er fyrsta gangan miðvikudaginn 6. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mín.
Á Kirkjubæjarklaustri verður óvissuferð frá Skaftárstofu og á Hvolsvelli verður gengið á Hvolsfjall kl. 18:20. Gangan á Hvolsvelli er sú eina sem ekki hefst kl. 18:00.
Í Hveragerði verður óvissuferð frá Laugarskarði og á sama tíma munu Ölfusingar ganga frá íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn vestur að Keflavík og til baka.
Á Selfossi verður gengið um Hellisskóg og í Bláskógabyggð verða tvær göngur, óvissuferð frá Menntaskólanum að Laugarvatni og sögu og menningarganga frá Aratungu í Reykholti.
Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.