Unnið verður að endurgerð á götunni Lyngheiði á Selfossi í sumar. Verkið hefst í næstu viku og á að vera lokið þann 1. október næstkomandi.
Verktaki er Gröfuþjónusta Steins á Selfossi en félagið bauð 94 milljónir króna í verkið sem var talsvert undir kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Eflu. Áætlaður kostnaður var rúmlega 121,6 milljónir króna.
Borgarverk ehf bauð tæpar 117,8 milljónir, E.Gíslason og Jarðbrú ehf. 131,9 milljónir og D Ing. Verk ehf rúmar 153,7 milljónir króna.
Verkið felur í sér jarðvegsskipti í götu, endurnýjun stofnlagna fráveitu, vatnsveitu og hitaveitu ásamt heildar endurnýjun á yfirborði götu og gangstétta.
Röskun á umferð í Lyngheiðinni
Af þessum sökum má búast við röskun á umferð sem og truflun af vinnu þungavinnuvéla á meðan á verki stendur.
Verkinu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanginn snýr að lagningu fráveitu frá Fossheiði að Lyngheiði á lóð Eyravegar 27 og 29 og á því að vera lokið þann 15. júní. Malbikun á þessum áfanga á að ljúka fyrir 1. júlí.
Seinni áfanginn er lagning fráveitu, lagna og búnaðar í Lyngheiði og á gatan að vera fullfrágengin aftur þann 1. október næstkomandi.