Ríkislögreglustjóri ásamt lögreglustjóranum á Suðurlandi lýsir yfir óvissustigi vegna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli. Jarðskjálftahrina hófst kl. 9:41 norðaustarlega í öskju Kötlu og mældust þrír skjálftar yfir 4 að stærð.
„Þetta eru óvenju stórir jarðskjálftar og því rétt að fylgjast vel með framvindunni og hvort annað fylgi í kjölfarið. Hvorki hefur þó mælst gosórói né hlaupórói,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Lögreglan á Suðurlandi hefur í ljósi þessa ákveðið að loka veginum inn að Kötlujökli. Ekki er talið ráðlagt að vera við rætur Kötlujökuls vegna mögulegs gasútstreymis og hlaupavatns í farvegi Múlakvíslar.
Í kringum Kötlu er mælanet sem samanstendur m.a. annars af jarðskjálfta-, aflögunar- og vatnamælum. Þessir mælar eru vaktaðir allan sólarhringinn af náttúruvársérfræðingum Veðurstofunnar og gefnar út tilkynningar ef snöggar breytingar verða á þeim sem mætti túlka sem skammtímafyrirboða að eldgosi eða jökulhlaupi, t.d. órói á jarðskjálftamælum. Engin slíkur órói sést á mælum núna.
„Ekki er hægt fullyrða neitt um það hvernig þróunin virkninnar verður og fylgist náttúruvárvöktun Veðurstofunnar áfram náið með málum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Snarlega dró úr jarðskjálftavirkninni um klukkan ellefu í morgun og frá hádegi hafa mælst sex skjálftar, allir um og yfir 1 að stærð.