Aðfaranótt síðastliðins sunnudags kl. 3:53 kom 16 ára gömul stúlka á lögreglustöðinr á Selfossi og tilkynnti að henni hefði verið nauðgað skömmu áður á grasflöt skammt frá skemmtistaðnum Hvítahúsinu.
Stúlkan hafði verið inni á Hvítahúsinu en farið út undir lok dansleiksins. Maður kom að stúlkunni og leiddi hana afturfyrir húsið þar sem hann nauðgaði henni. Þegar í stað var farið með stúlkuna í neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítalanum þar sem fram fór læknisrannsókn og stúlkunni veitt aðhlynning.
Stúlkan þekkti ekki brotamanninn en gaf greinargóða lýsingu á honum. Böndin beindust fljótlega að 36 ára gömlum manni búsettum á höfuðborgarsvæðinu og var hann handtekinn í Reykjavík í gærmorgun og fluttur á Selfoss þar sem hann var yfirheyrður.
Yfirheyrslur yfir manninum og vitnum stóðu fram eftir kvöldi í gær. Maðurinn var látinn laus seint í gærkvöldi eftir húsleit á heimili hans. Tæknideild LRH kom að rannsókninni m.a. með öflun lífsýna og úrvinnslu þeirra.
Rannsóknin er í góðum farvegi en lögreglan á Selfossi biður alla þá sem hugsanlega hafa verið vitni að aðdraganda málsins og séð til stúkunnar og karlmannsins um kl. 3:00 við Hvítahúsið að hafa samband í síma lögreglunnar 480 1010.