Aftakaveður á heiðum í nágrenni Eyjafjallajökuls dagana 14. og 15. september 2010 er talið hafa valdið mestu efnisflutningum og landrofi sem mælst hefur nokkru sinni á jörðinni.
Sandfok í kjölfar eldgosa getur haft jafn mikil eða jafnvel meiri umhverfisáhrif en verða við öskufall í sjálfum eldsumbrotunum.
Niðurstöður þessara mælinga Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands á gjóskufoki í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010 voru birtar í ritinu Scientific Reports sem gefið er út af Nature. Fréttablaðið fjallaði um málið í vikunni.
Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslu Íslands og einn rannsakenda, segir að vorið 2010 hafi verið sett upp mælitæki á Skógaheiði til að fylgjast með áhrifum gjósku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli á gróður og land. Magn gosefna var enn í hámarki á svæðinu, og svara átti spurningum um hversu hratt gosefnin fara, hvert og hvernig. Slíkar mælingar höfðu aldrei verið gerðar hér á landi áður.
Jóhann segir tilviljun hafa ráðið að mælitækin voru komin upp þegar norðaustan illviðri gekk yfir landið, og rannsóknin sérstök að því leyti að í eyðimörkum og víðar þar sem sandfok er mælt hafa ekki mælst meiri efnisflutningar.
Þegar spurt er um magn efnis sem var á ferðinni á Skógaheiði segir Jóhann ómögulegt að gefa sér heildartöluna, en það hljóti að vera mælt í milljónum og aftur milljónum tonna. Ein mælieining liggur þó fyrir. Massi efnis sem fýkur yfir eins metra breitt snið var mældur. Mælingarnar sýndu að allt að 12 tonn af efni fuku yfir eins metra breitt svæði – á aðeins einum klukkutíma.