M-listi Miðflokksins í Árborg hefur óskað eftir því við bæjarstjórn, bæjarráð og sviðsstjóra Árborgar að frambjóðendur Miðflokksins fái kynningu á starfsemi sveitarfélagsins á næstunni.
Erindi þessa efnis var sent á bæjarfulltrúa og lykilstjórnendur hjá sveitarfélaginu í dag.
„M-listinn er nýtt framboð sem hefur áhuga á að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins eins og hún er í dag og kynnast starfsmönnum sveitarfélagsins. Við teljum mikilvægt að heyra hljóðið í starfsmönnum sveitarfélagsins, hvernig starfsemin hefur gengið, hvernig hún er í dag og hvar má gera betur,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, oddviti M-listans í Árborg, í samtali við sunnlenska.is.
Tómas Ellert bætir við að M-listinn hafi lagt mikla vinnu í að greina fjármál sveitarfélagsins. „Til dæmis hvað þarf að framkvæma á næstu árum til að mæta fjölgun íbúa og hvernig hægt sé að bæta þjónustuna við íbúana. Nú langar okkur að heyra sjónarmið sviðsstjóra og starfsmanna sveitarfélagsins um hvar hægt er að gera betur. Þetta er jú fólkið sem heldur sveitarfélaginu gangandi í dag og ætti að vera með puttann á púlsinum. Við höfum ákveðnar hugmyndir um hverju má breyta og hvað þarf að laga.“
Miðflokkurinn hefur óskað eftir því að kynningarnar fari fram fyrir 11. maí næstkomandi.