Maðurinn fannst heill á húfi

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fundu rétt fyrir klukkan sex þýskan ferðamann sem saknað hafði verið á Eyjafjallajökli frá því í fyrradag.

Vélsleðahópur ók fram á hann austan við gígbrúnina. Fannst heill á húfi og var hann þá staddur austan við gígbrúnina.

Samkvæmt upplýsingum frá Baldri Óskarssyni, í svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 16, þar sem maðurinn fannst, var hann í ótrúlega góðu ástandi. „Hann var settur á sleða og tekinn beint inn í snjóbíl,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is.

Björgunarsveitir fluttu manninn til byggða og var reiknað með að hann yrði kominn undir læknishendur á Hellu eða Hvolsvelli um klukkan níu.

Um 150 björgunarsveitamenn af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í leitinni en aðeins mjög vant fjalla- og jöklafólk var kallað til. Aðstæður til leitar voru slæmar í nótt, éljagangur og lítið skyggni auk þess sem jökullinn er mikið sprunginn og hættulegur yfirferðar.

Fyrri greinBlávatn í lögnum í Hveragerði
Næsta greinHálkuslys á Heiðinni