Klukkan 1:15 í nótt fundu björgunarsveitir manninn sem leitað hafði verið að við Svínafellsjökul. Var hann orðinn mjög kaldur og alveg uppgefinn og var settur í þurr föt og gefið að borða.
Maðurinn var þá staddur í Hafrafelli í um 900 m hæð.
Hátt í 100 björgunarmenn tóku þátt í leitinni eða voru á leið á svæðið þegar maðurinn fannst.
Maðurinn sendi SMS skilaboð til björgunarsveitanna á meðan á leitinni stóð. Hann var staddur á gönguleiðinni á Hrútfellstinda sem er vinsæl gönguleið en frekar krefjandi. Í upphafi var talið að maðurinn væri á Svínafellsjökli en þegar leit hófst skýrðist staðsetning mannsins betur.
Nokkurn tíma tók að koma manninum niður þar sem hann var mjög máttfarinn. Þurftu björgunarsveitarmenn að ganga með honum um 4 km yfir torfarið svæði í myrkri og úrhellisrigningu áður en hægt var að koma honum í bíl.
Uppfært kl. 07:41.