Sérsveit lögreglunnar handtók í kvöld mann sem leitað hefur verið að í Árnessýslu síðan í gær í tengslum við rannsókn á alvarlegum ofbeldisbrotum. Maðurinn var handtekinn í sumarbústaðahverfi í Miðhúsaskógi í Biskupstungum.
Maðurinn er grunaður um að hafa rænt manni í Reykjavík og farið með hann á Stokkseyri þar sem manninum var haldið föngnum í meira en sólarhring og hann beittur mjög grófu ofbeldi.
Fjórir aðrir menn tengjast málinu og hafa þeir einnig verið handteknir. Tveir þeirra voru handteknir við Laugarvatn í gærkvöldi en hinir tveir á höfuðborgarsvæðinu.
Vegna rannsóknarhagsmuna veitir lögreglan ekki nánari upplýsingar að svo stöddu.