Maðurinn sem féll í Þingvallavatn fyrir einni og hálfri viku síðan lést á Landspítalanum á föstudaginn var. Hann komst aldrei til meðvitundar eftir slysið og var haldið sofandi í öndunarvél.
mbl.is greinir frá þessu.
Maðurinn var rúmlega sjötugur Íslendingur og var einn á ferð á veiðistað úti í vatninu. Annar veiðimaður sá til hans missa fótana, en talsvert var á milli þeirra. Sá óð þegar í land og hljóp nærri kílómeters leið að slysstaðnum og óð eftir einstigi út að þeim sem féll og náði til hans út á nokkru dýpi með veiðibúnaði sínum.
Hóf hann strax endurlífgunartilraunir, en maðurinn var svo sóttur með þyrlu og fluttur til Reykjavíkur.