Vélsmiðjan Magni á Hvolsvelli vinnur nú að gerð nýrra brúa fyrir Þórsmörk. Rangárþing eystra fékk sl. vor úthlutað 15 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar og verndaraðgerða í Þórsmörk.
Styrkurinn verður m.a. nýttur til að setja upp þrjár göngu- og hjólabrýr í vor. Lengsta brúin verður um 30 metrar og hinar tvær um 20 metrar.
Brýrnar eru núna í smíði hjá Magna á Hvolsvelli. Verkefnið er unnið í samvinnu með Skógrækt ríkisins og hefur Hreinn Óskarson skógarvörður á Suðurlandi haldið utan um það.
Vélsmiðjan Magni hefur starfað lengi á Hvolsvelli og þjónustað vel landbúnaðinn á svæðinu, auk þess þjónusta þeir líka Sláturfélag Suðurlands á Hvolsvelli og Reykjagarð á Hellu.