Magnús Ingberg Jónsson hefur ákveðið að draga framboð sitt til forseta Íslands til baka en hann staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið i gær.
„Söfnunin sem fór af stað um daginn, þegar ég hóf framboðið, hún gengur ekki vel,“ segir Magnús en frambjóðendurnir þurfa að safna að lágmarki undirskriftum 1.500 stuðningsmanna framboðsins.
„Miðað við gang mála í þessari rafrænu söfnun þar sem ég ætlaði ekki að safna neinu skriflegu nema það hafi sérstaklega verið óskað eftir því af viðkomandi aðilum, að þá er í rauninni þessu framboði sjálflokið,“ segir Magnús en undirskriftasöfnuninni lýkur næsta þriðjudag.
Magnús bauð sig einnig fram til forseta árið 2016 en náði þá ekki tilskildum fjölda undirskrifta.