Magnús Hlynur Hreiðarsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Sunnlenska fréttablaðinu. Þar mun hann sjá um fréttaskrif og önnur tilfallandi verkefni í hlutastarfi á ritstjórn blaðsins, jafnhliða því að starfa sem fréttamaður fyrir 365 miðla á Suðurlandi.
Magnús Hlynur er Suðurnesjamaður, fæddur og uppalinn í Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi en hefur búið á Selfossi í rúm 20 ár. Hann lærði fjölmiðlun, er búfræðingur frá Hvanneyri og garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi.
„Það er fengur í Magnúsi, sem þekkir bæði menn og málefni hér á Suðurlandi út og inn, og allir þekkja jú Magnús. Við væntum því mikils af honum,“ segir Sigmundur Sigurgeirsson, ritstjóri Sunnlenska.