Magnús Ingberg Jónsson, verktaki á Selfossi, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands og safnar nú meðmælendum vegna framboðsins.
Magnús, sem er frá Svínavatni í Grímsnesi, er 46 ára gamall, giftur Silju Dröfn Sæmundsdóttur og saman eiga þau fimm börn.
Í tilkynningu segir Magnús að sem forseti muni hann leggja mesta áherslu á að landið verði ekki stjórnlaust vegna pólitískra átaka, sem ganga út á að rífast innbyrðist um sérhagsmuni og frama, í stað samvinnu að bættum hag Íslendinga.
Helstu skoðanir Magnúsar eru þessar:
1. Verðtryggingu verður að afnema og vil ég að þjóðin fái að ákveða það í næstu alþingiskosningum ef alþingi er ekki fært um það.
2. Húsnæðislán verði einungis með veð í eigninni og þá í prósentum (dæmi: 80%lán = aldrei meira en 80% veðsetning).
3. Ég er ekki hlynntur inngöngu í ESB, en mun virða skoðun þjóðarinnar sé hún gagnstæð minni.
4. Ég virði stjórnarskránna, þar sem hún er vel skrifuð.
5. Þjóðin skal fá að taka ákvarðanir í umdeildum málum.
6. Bæta þarf heilbrigðisþjónustuna út á landi og standa vörð um sjúkraflugið og bættar samgöngur.
Undirskriftarlistar meðmælanda liggja frammi í Sjafnarblómum á Selfossi, Versluninni Borg í Grímsnesi, Bjarnabúð í Reykholti, Samkaupum á Flúðum, Versluninni Landvegamótum, Bíliðjunni í Þorlákshöfn og á heimili Magnúsar og Silju í Spóarima 14 á Selfossi.
“Mig vantar meðmælendur og fresturinn er að renna út. Ekki hika ef þú vilt ábyrgan forseta,” segir Magnús og bætir við að þeir sem vilji aðstoða hann við að safna meðmælendum geti sett sig í samband við hann í síma 899-9670.