Magnús Kjartan stýrir brekkusöngnum í fjórða sinn

Magnús Kjartan Eyjólfsson. Ljósmynd/Hafsteinn S

Selfyssingurinn Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari Stuðlabandsins, mun stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í fjórða skipti næstkomandi sunnudagskvöld.

Magnús greindi frá þessu í viðtali á K100 en hann greindist með hvítblæði í febrúar síðastliðnum.

„Ég vissi ekkert hvort ég myndi ná að syngja og spila fyrir fólk á þessu ári en ég var alltaf búinn að setja markmiðið á að ná brekkusöng og það bara lítur út fyrir að það sé að takast,“ segir Magnús og kveðst virkilega spenntur fyrir helginni sem er fram undan.

Magnús stýrði fyrst brekkusöng árið 2021, fyrir tómri brekku í heimsfaraldri, en tvö síðustu ár hefur hann staðið á sviðinu fyrir framan pakkaða brekku í Herjólfsdal. Hann kveðst þakklátur fyrir að fá tækifærið í ár.

„Mér fannst það einhvern veginn á þeim að [þjóðhátíðarnefnd] ætlaði í rauninni að leyfa mér bara að meta það hvort ég myndi treysta mér í þetta eða ekki,“ segir hann og bætir við að hann sé sérstaklega þakklátur fyrir þá tillitssemi, en tekur fram að tækifærið hafi boðist honum áður en hann greindist í febrúar.

Viðtal K100 við Magnús Kjart­an má lesa í Morg­un­blaðinu í dag.

Fyrri greinEngin fýluferð þrátt fyrir tapleik
Næsta greinEiga vel yfir þúsund leiki samtals