,,Það væri ekki mikið að gerast hjá okkur núna ef ekki væri fyrir makríllinn,” sagði Indriði Kristinsson hafnarstjóri í Þorlákshöfn.
Þessi tími ársins er yfirleitt mjög rólegur í höfninni, sérstaklega eftir að Herjólfur hætti að sigla þangað. Því hefur komið sér vel þau auknu umsvif sem makríllinn hefur skapað.
Að sögn Indriða hafa nokkrir heimabátar verið á makrílveiðum auk þess sem frystitogarar hafa komið með fisk til vinnslu. Fyrirtækið Toppfiskur hefur verið með vinnslu í gangi. Þá hafa flutningaskip verið á ferðinni og tekið makrílinn að lokinni vinnslu.