Stuttmyndin Viktoría eftir Brúsa Ólason frá Litlu-Sandvík var á dögunum valin til að taka þátt í tveimur stórum kvikmyndahátíðum, Toronto International Film Festival í Kanada og Nordisk Panorama í Svíþjóð.
„Báðar hátíðirnar eru virtar á sinn hátt. TIFF er ein af virtustu kvikmyndahátíðum í heiminum og tekur bara til greina frumsýningar á stuttmyndum enda verður alþjóðleg frumsýning á Viktoríu þar,“ segir Brúsi í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Brúsa er Viktoría lítil saga um stóra konu sem á í erfiðleikum með að reka kúabú einsömul.
Eina íslenska stuttmyndin
„Á TIFF eru frumsýndar kvikmyndir eftir marga af þekktustu kvikmyndagerðarmönnum heims. Til dæmis er Barry Jenkins sem leikstýrði Moonlight að frumsýna sína nýjustu mynd þarna, svo maður verður í góðum hópi,“ segir Brúsi en hann leggur stund á leikstjórn og handritaskrif í Columbia háskólanum í New York í Bandaríkjunum.
„Nordisk Panorama er svo ein virtasta stuttmyndahátíð Norðurlanda. Viktoría keppir um verðlaunin fyrir bestu norrænu stuttmyndina við tuttugu aðrar stuttmyndir frá Norðurlöndunum en hún er eina íslenska stuttmyndin sem keppir þar í ár,“ segir Brúsi.
Stuttmyndin Viktoría hefur víða vakið athygli og hlaut hún m.a.
Sprettfiskinn á Stockfish kvikmyndahátíðinni síðasta vetur.
„Var náttúrulega í skýjunum“
Brúsi var að vonum ánægður þegar hann frétti af því að myndin væri komin inn á þessar hátíðir. „Ég var náttúrulega í skýjunum í bæði skipti en það er kannski eftirminnilegara þegar myndin komst inná TIFF því þá var ég heima í sveit hjá mömmu og var fyrir utan húsið þegar ég sá tölvupóstinn og ég hljóp inn með svo miklum látum að mamma hélt að einhver hross hefðu sloppið úr girðingu og það væri eitthvað neyðarástand,“ segir Brúsi hlæjandi.
„Það er alltaf það sama sem ég vil koma á framfæri með þessar myndir – ævarandi og eilíft þakklæti til allra sem tóku þátt,“ segir Brúsi að lokum.
TIFF verður haldin dagana 6.-16. september og Nordisk frá 20.-25. september.
Hópurinn sem kom að stuttmyndinni. Ljósmynd/Gunnar Már Hauksson