„Man ekki eftir annarri eins opnun“

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, Finnur Hafliðason, verslunarstjóri í Nettó Eyravegi og Heiðar Róbert Birnuson, aðstoðarframkvæmdastjóri á verslunar- og mannauðssviði Samkaupa. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ný Nettó verslun opnaði að Eyravegi 42 á Selfossi í morgun. Óhætt er að segja að íbúar á svæðinu hafi beðið með mikilli eftirvæntingu eftir nýju versluninni en biðröð var fyrir utan þegar hún opnaði.

Nýja verslunin er um 1.000 fermetrar og er fimmta græna verslun Nettó sem þýðir að allt kapp er lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar.

„Tilfinningin er ólýsanleg að vera loksins búin að opna. Við erum ótrúlega ánægð með þetta. Það er samt ekkert ótrúlegt við það – við erum búin að leggja mikla vinnu í þessa búð. Við erum búin að vera í þessu verkefni nánast síðan í janúar. Við ætluðum auðvitað að opna í maí þannig að allt mitt teymi og það frábæra fólk sem kemur að búðinni er búið að leggja mikið á sig að gera þessa upplifun fyrir viðskiptavinina sem maður bara finnur þegar maður labbar hérna inn. Það er gott andrúmsloft, það er hver einasti rekki er útpældur,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.

Nýja Nettó verslunin er um 1.000 fermetrar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Nettó Austurvegi verður áfram
Nýja Nettó verslunin við Eyraveg er önnur Nettó á Selfossi en Nettó mun áfram starfrækja verslun að Austurvegi 42.

„Fólk er búið að vera hérna dag og nótt og langt fram á nótt til að klára. Ég er bara ótrúlega stolt. Ég er stolt af fólkinu mínu, ég er stolt af Samkaupum að hafa opnað aðra verslun. Ég veit að umræðan er búin að vera hvort það eigi að loka hinni en það verður ekki. Hún verður uppfærð á næstu árum en við erum bara ánægð að geta boðið enn betri þjónustu og meira vöruúrval og þessa frábæru upplifun fyrir viðskiptavini á öllu Suðurlandi.“

„Við vitum að hér í Árborg og á þessu svæði er mikil uppbygging og við höfum trú á því að þetta verið mjög farsælt fram í framtíðina,“ segir Gunnur en þess má geta að nýja verslunin skapar 25 ný störf.

Djúsbarinn var strax kominn í fulla notkun. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Skemmtilegt að vita af eftirvæntingunni
Gunnur segir að hún hafi orðið vör við þá miklu eftirvæntingu sem var hjá íbúum á svæðinu eftir nýju Nettó búðinni.

„Mér finnst þetta dásamlegt. Ég er ótrúlega ánægð með það. Auðvitað viljum við að íbúar velji okkur. Við vitum að það er mikil samkeppni á dagvörumarkaði og í verslunum. Við erum hérna til að keppa á lágvörumarkaði. Við viljum að allir viðskiptavinir hér á svæðinu velji okkur. Ég er mjög ánægð og mér finnst eiginlega skemmtilegra að vita hversu mikil eftirvæntingin er búin að vera. Það þýðir að það er líka eftirspurn. Við tökum fólki fagnandi.“

Aðspurð hvort hún hafi átt von á þessari miklu eftirvæntingu segir Gunnur bæði og. „Við erum búin að vera í þessu ferli svo lengi þannig að við náðum greinilega líka að byggja upp einhverja eftirvæntingu við að opna. Ég hef unnið að svona verkefnum áður og ég man ekki eftir annarri eins opnun – hér var biðröð fyrir utan í morgun. Þannig að við erum bara mjög ánægð með það.“

Sigurdór Örn Guðmundsson og bangsahundurinn Garðar létu sig ekki vanta á opnuna í morgun. Mikil eftirvænting hefur verið hjá ungum sem öldnum eftir nýju Nettó versluninni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Allt til alls
Óhætt er að segja að nýja Nettó verslunin sé einstaklega glæsileg en þess má geta Nettó Eyravegi verður hér eftir notuð sem fyrirmynd fyrir aðrar Nettó verslanir.

„Hér er breytt vöruúrval. Hér fá neytendur allt sem þeir þurfa. Hér er allt til alls, frá heimilisvöru yfir í góða helgarsteik, yfir í jólamatinn, allar jólagjafirnar og bækurnar og allt.“

„Nettó er lágvöruverslun og við vonum því að fólk upplifi nýju verslunina sem mikla búbót, hvort sem um er að ræða heimafólk eða þau sem fara um Selfoss til og frá fjarlægari heimabyggðum. Það er alltaf gott að fá enn betri og stærri Nettó verslun í sitt nágrenni. Þá má ekki gleyma því að viðskiptavinir safna inneign í Samkaupaappinu í hverri verslunarferð, sem gerir innkaupin enn hagstæðari.“

Einstaklega heppin með starfsfólk
Gunnur er þakklát og ánægð fyrir starfsfólkið sitt í Nettó Selfossi. „Starfsfólkið er búið að standa sig frábærlega. Hér er ótrúlega góður kjarni af fólki. Við erum einstaklega heppin með það hjá okkur að fólk vex vel innan fyrirtækisins þannig að hann Finnur sem var verslunarstjóri á Austurvegi er kominn á Eyraveginn og Kristrún sem var verslunarstjóri í Krambúðinni er komin sem verslunarstjóri á Austurvegi og þar er hún Hafdís búin að stíga upp í Krambúðinni.“

„Við einstaklega heppin með starfsfólk. Þau eru búin að vera hérna dag og nótt síðustu vikur að koma þessu heim og saman. Síðustu metrarnir eru alltaf lang flóknastir, þegar þú færð alla ferskvöruna í hús svo að hún sé sem ferskust. Hér voru margir voru fram á nótt að gera og græja. Þau eru algjörlega ómetanleg,“ segir Gunnur að lokum.

Formlega verður haldið upp á opnun verslunarinnar með opnunarhátíð þann 19. desember næstkomandi og verða þá ýmis opnunartilboð í gangi.

Nýja Nettó verslunin er staðsett við Eyraveg 42 á Selfossi, þar sem Húsasmiðjan var áður til húsa. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinÁtta ökumenn undir áhrifum í miðri viku
Næsta greinFyrsta skóflustungan að nýjum miðbæ í Þorlákshöfn