Á annað hundrað manngerðir jarðskjálftar urðu í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar í gær en undanfarnar vikur hefur Orkuveita Reykjavíkur dælt niður jarðhitavatni um borholur og hefur það valdið skjálftunum.
Stærstu jarðskjálftarnir mældust um 3 á Richter og bárust Veðurstofu Íslands tilkynningar frá fólki sem varð skjálftanna vart í Hveragerði og Mosfellsbæ.
Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir manngerðu jarðskjálftana auka mjög álag á jarðskjálftamæla og hafa truflandi áhrif þegar verið er að greina upplýsingar tengdar raunverulegum skjálftum eins og verið hafa í Kötlu undanfarið.
Í gærmorgun varð skjálfti í Kötluöskju sem mældist 2,7. Talsverð virkni hefur verið í eldstöðinni frá því að hlaup varð í Múlakvísl, sem rennur úr Mýrdalsjökli, og í Morgunblaðinu í dag segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur Kötlu vera í mjög órólegu ástandi.
mbl.is greindi frá þessu