Björgunarsveitir á Eyrarbakka, í Þorlákshöfn og Árborg hafa verið kallaðar út eftir að tilkynnt var um mannlausan bát í Ölfusárósi á tíunda tímanum í morgun.
Það var vegfarandi um Eyrarbakkaveg sem tilkynnti um bátinn sem var á reki til móts við veitingastaðinn Hafið bláa.
Ekki hefur verið tilkynnt um neitt slys á ánni en Viðar Arason, í svæðisstjórn björgunarsveita, sagði í samtali við sunnlenska.is að á meðan ekki væri vitað hvaðan báturinn væri tækju viðbragðsaðilar enga áhættu og því væri stór hópur björgunarfólks kallaður á vettvang.
UPPFÆRT KL. 11:00: Leit á svæðinu hefur verið hætt þar sem komið hefur í ljós um um bát var að ræða sem rekið hafði frá landi.