Það var ánægður eldri borgari á Suðurlandi sem var svo heppinn að vera einn af þremur sem deildu með sér tvöfalda pottinum í Víkingalottóinu síðastliðinn miðvikudag.
Maðurinn vann rúmlega 86,3 skattfrjálsar milljónir sem hann ætlar að deila með börnum sínum og eru það því margar fjölskyldur sem njóta góðs af þessum glæsilega Víkingalottóvinningi.
Maðurinn hefur spilað reglulega með frá því að Víkingalottó kom til landsins, kaupir alltaf 5 sjálfvalsraðir í Víkingalottói og eina röð í EuroJackpot en hann hefur spilað með til að fá stóra vinninga og það tókst svo sannarlega núna.
Maðurinn var lengst af í tveimur störfum og sagðist hann nú aðallega hugsa um hvað þessi vinningur gæti nýst börnum sínum vel.
Hann sá vinningstölurnar á netinu á miðvikudagskvöldið og það var ekki fyrr en hann fór vel yfir neðstu röðina á miðanum að hann sá að hann var vinningshafinn. Konan hans var ekki heima þegar hann veitti þessu athygli og var biðin löng eftir að hún kom heim seinna um kvöldið; hann bað hana að lesa fréttirnar um vinninginn og þegar hún var búin að því sagði hann; „ég er vinningshafinn“ . Konan átti að sjálfsögðu bágt með að trúa honum og sannfærðist ekki fyrr en hún var búin að skoða miðann sjálf.