Menntamálaráðherra hefur staðfest að starfshópur á vegum þeirra opinberu aðila sem hafa með örnefni að gera fari í sameiningu með ákvörðunarvald á nafngift nýju eldstöðvarinnar.
Þetta eru Landmælingar Íslands, nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Örnefnanefnd. Með þessari staðfestingu hefur verið eytt óvissu um hver skuli ákveða nafn á hinu nýja kennileiti, en mikill áhugi er á nafngiftinni og starfshópnum hafa borist fjölmargar tillögur.
Næstu skref hópsins eru því að fara yfir tillögurnar auk þess að kynna sér þau örnefni sem þekkt eru á svæðinu, en í fréttatilkynningu segir að nokkuð vandaverk kunni að vera að velja nafn á eldstöð sem enn er í fullri virkni og óljóst er hvernig muni þróast.