Í vikunni fóru fram sveinspróf í skrúðgarðyrkju í Landbúnaðarháskólanum á Reykjum en nemendur þreyttu prófið á þremur dögum, frá þriðjudegi til fimmtudags.
Þetta er fjölmennasta sveinspróf sem haldið hefur verið í meira en áratug, en fimmtán manns þreyttu prófið nú. Það var síðast árið 2002 sem svo margir tóku sveinspróf í greininni. Á fyrsta degi er prófað í krónuklippingum, limgerðisklippingum, runnaklippingum, landmótun og þökulögn. Nauðsynlegt er fyrir nemendur að skipuleggja tíma sinn vel því þeir hafa takmarkaðan tíma í hvern verkhluta.
Á öðrum og þriðja degi vinna nemendur heilstætt verk á sextán fermetra svæði sem þarf að innihalda m.a. hellulögn, kantsteinslögn, gróðursetningu, uppbindingu, vinnslu náttúrugrjóts og margt fleira.
Undirbúningsvinnan er unnin heima við og skila nemendur verkáætlun og gróðurteikningum til prófdómara. Tímastjórnun er stór hluti af sveinsprófinu og er nauðsynlegt að skammta tíma í hvern verkþátt og passa að ekkert gleymist.