Margir áhugasamir um afþreyingu ferðamanna

Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands stóð fyrir frumkvöðlafundi á Hótel Selfoss í gær undir yfirskriftinni „Ert þú frumkvöðull?“.

Markmið fundarins var að kynna tækifæri fyrir einstaklingum sem hafa áhuga á að koma á fót smáfyrirtæki í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu. Vöntun er á afþreyingu eins og gönguferðum með leiðsögn, hjólaferðum eða leigu, styttri ferðum á þær náttúruperlur sem eru í sveitarfélaginu eða eitthvað tengt íslenska hestinum fyrir gesti á Árborgarsvæðinu.

Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, segir mjög ánægjulegt hversu margir sýndu fundinum áhuga en greinilega séu til einstaklingar á svæðinu sem langar til að koma á fót afþreyingu fyrir ferðamenn, íslenska sem erlenda. Þeir sem ekki komust á fundinn en hafa áhuga á að taka þátt í uppbyggingu og fjölgun afþreyingarmöguleika á Árborgarsvæðinu eru hvattir til að hafa samband við Braga en stefnt er á vinnufund með áhugasömum strax í næstu viku.

Fyrirlesarar á fundinum í gær voru Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, Hannes Ottósson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Andrés Úlfarsson frá Iceland Activites í Hveragerði. Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi stýrði fundinum og umræðum á eftir.

Fyrri greinNjáludagskrá í Þorlákshöfn í kvöld
Næsta greinFramsókn með fimm í nýjustu könnun