Sjö verkefni á Suðurlandi fengu samfélagsstyrk frá Krónunni að þessu sinni. Krónan úthlutaði samtals 7 milljónum króna til 27 verkefna víðsvegar um landið, en alls bárust 220 umsóknir frá samtökum og félögum til Krónunnar.
Verkefnin eiga það öll sammerkt að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu í nærsamfélögum Krónunnar eða hvetja til hollustu og hreyfingar barna.
Fimleikadeild Heklu á Hellu fékk styrk fyrir nýjum áhöldum og fimleikadeild Hamars í Hveragerði fyrir fræðsludegi þjálfara og foreldra iðkenda. Þá fékk Umf. Þjótandi í Flóahreppi styrk fyrir frisbígolfvelli og kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli fékk styrk fyrir aðfangakostnað, sem og Regnboginn lista- og menningarhátíð í Vík sem fékk stykr fyrir mat í menningarveislu hátíðarinnar. Þá fengu tvær björgunarsveitir styrki, Kyndill á Klaustri fyrir breytingu á bíl og Dagrenning á Hvolsvelli fyrir unglingastarfið.
„Við erum alltaf jafn ánægð að sjá hversu margir eru að vinna að metnaðarfullum verkefnum í því skyni að bæta líf og heilsu barna, sem og þau sem eru að vinna að annarri jávæðri uppbyggingu í samfélaginu. Mörg þeirra verkefna sem við styrkjum í ár eru unnin í sjálfboðavinnu og það er ekki síst þess vegna sem við hjá Krónunni viljum leggja okkar á vogarskálarnar við að halda þessum góðu verkefnum gangandi,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.