Íslendingar hafa notað Ferðagjöfina fyrir tæplega 91,3 milljónir króna hjá ferðaþjónustuaðilum á Suðurlandi. Alls hafa 18,5% af nýttum ferðagjöfum verið notaðar á Suðurlandi.
Rúmlega 43,5 milljónir króna hafa verið nýttar í gistingu á Suðurlandi, 25,8 milljónir í afþreyingu og 21,3 milljónir króna á veitingastöðum.
Flestir hafa notað ferðagjöfina sína á Jökulsárlóni en þar hefur tæpum 7 milljónum króna verið ráðstafað, þar á eftir kemur Hótel Örk með tæplega 4,2 milljónir króna og svo Hótel Geysir með tæplega 3,8 milljónir króna. Laugarvatn Fontana, Friðheimar og Hótel Kría eru einnig ofarlega á blaði, en þessar upplýsingar má allar finna á mælaborði ferðaþjónustunnar.
Héldu hótelinu gangandi með góðri hjálp frá Íslendingum
Geir Gígja, markaðsstjóri Hótel Arkar, segir að sumarið hafi gengið ágætlega og að margir hafi nýtt sér ferðagjöfina.
„Við vorum með góð tilboð í boði sem vorum meðal annars í samstarfi við aðra ferðaþjónustuaðila í nágrenninu, svo sem Iceland Activities með aparóluna, fjórhjól með BlackBeach Tours og svo hellaskoðun í Raufarhólshelli. Einnig buðum við golfpakka sem nutu vinsælda. Auðvitað var þetta ekkert líkt því sem hefur verið undanfarin sumur en með góðri hjálp þeirra Íslendinga sem heimsóttu okkur gátum við haldið smá rekstri í húsinu og starfsfólkinu okkar í smá vinnu. Verðið var auðvitað mun lægra en áður og nýtingin einnig. Það voru helst helgarnar sem voru góðar,“ segir Geir í samtali við sunnlenska.is.
Hann bætir við að með hertum reglum á landamærum og fækkun erlendra ferðamanna sé útlitið næstu mánuði auðvitað dökkt.
„Við fundum það um leið og landamærareglurnar voru hertar að þá kom mikið af afbókunum. Einnig fóru íslensk fyrirtæki og hópar að afbóka sem vonandi breytist fljótt aftur núna þegar fjöldatakmarkanir eru komnar í 200 manns. Við ætlum að halda áfram að reyna að fá Íslendinga til okkar með góðum tilboðum og vonandi sjá sem flestir sér hag í því að heimsækja okkur í vetur. Það er stutt til Hveragerðis og nóg um að vera þar og í nágrenninu,“ bætir Geir við að lokum.