Margir of þungir og einn grunaður um ölvun

Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurland

Í gær var var lögreglan með viðamikið eftirlit með umferð á vigtunarstæði við Þorlákshafnarveg en vegna hlýinda og aurbleytu eru nú 10 tonna þungatakmarkanir á flestum vegum í Árnessýslu.

Ellefu ökutæki sem fóru á vigtina hjá lögreglunni í gær reyndust yfir heimilaðri þyngd og þar af voru þrjú þeirra meira en 5 tonnum þyngri en heimilað er.

Lögreglan kannaði ýmislegt fleira í þessu eftirliti og voru samtals sextán ökumenn kærðir fyrir ýmis brot, meðal annars reyndist einn ökumannanna án gildra aukinna ökuréttinda og var hann einnig grunaður um ölvunarakstur.

Einn farþegi reyndist vera sætisbeltislaus, tveir ökumenn brutu gegn ákvæðum um aksturs- og hvíldatíma og tveir gerðust uppvísir að því að ganga ekki tryggilega frá farmi líkt og lög gera ráð fyrir.

Fyrri greinKÁ fór illa með Stokkseyringa
Næsta greinHvaða eiga Roxette og Páll Óskar sameiginlegt?