Í liðinni viku voru sjö ökumenn eða farþegar kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti bifreiðar sinnar.
Þá voru 26 kærðir fyrir að aka of hratt og voru flestir þeirra á ferð á Suðurlandsvegi og á Biskupstungnabraut, m.a. innan þeirra marka við þéttbýlið á Borg þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst.
Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að mælingar á Þingvallavegi, Mosfellsheiði og á nýjum vegi yfir Lyngdalsheiði hafa ekki gefið til kynna að þar sé mikið um hraðakstur en lögð hefur verið áhersla á hraðamælingar á þessum vegum liðnar vikur og verður svo áfram.