Margir stigu fast á bensínið – Kærum fjölgar á milli ára

Ökumenn eru að auka hraða farartækja sinna sem kemur fram í því að lögreglan kærði töluvert fleiri ökumenn fyrir hraðakstur í liðinni viku en um mjög langt skeið.

Alls voru 48 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, langflestir á Suðurlandsvegi á Hellisheiði og nágrenni. Aðrir voru á ferð um Eyrarbakkaveg, Lyngdalsheiðarveg og Skeiðaveg.

Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Það sem af er þessu ári hafa 34 ökumenn verið kærðir fyrir fíkniefnaakstur, 32 fyrir ölvunarakstur og 227 fyrir hraðakstur.

Á sama tímabili árið 2011 voru 8 kærðir fyrir fíkniefnaakstur, 16 fyrir ölvunarakstur og 140 fyrir hraðakstur.

Til fróðleiks má geta þess að árið 2007 litu tölurnar svona út, 33 fíkniefnaakstursmál, 48 ölvunarakstursmál og 752 hraðaksturssmál. Inn í hraðakstursmálunum eru ekki taldir þeir sem mælst hafa með hraðamyndavélum.

Fyrri greinKviknaði í út frá rafmagni
Næsta greinFjóla hljóp hratt á Spáni