Nokkur umferðaróhöpp hafa orðið á þjóðvegum sunnanlands í dag án þess þó að slys yrðu á fólki.
Bíll fór útaf Búrfellsvegi í kvöld, þrír voru um borð en enginn slasaðist. Þá varð bílvelta á Ásavegi í Ásahreppi í kvöld en ökumaðurinn, sem var einn á ferð, slapp án teljandi meiðsla. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar.
Einn fór útaf veginum í Þrengslum um miðjan daginn í dag en björgunarsveitarmenn úr Þorlákshöfn aðstoðuðu hann við að komast upp á veginn aftur. Í hádeginu fóru þrír bílar útaf á Hellisheiði og í Kömbum en enginn slasaðist.
Fljúgandi hálka og slæm færð hefur verið víða í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í dag. Bílar festu sig á veginum að Sólheimajökli og sömuleiðis á leiðinni út í Dyrhólaey. Björgunarsveitin í Vík aðstoðaði ökumennina við að losa sig.
Þá fór bíll útaf Suðurlandsvegi við Hólmsá en ökumaður og farþegar sluppu með skrekkinn og bíllinn komst óskemmdur upp á veginn aftur.