Margrét Björk Brynhildardóttir hefur verið ráðin í starf deildarstjóra skólaþjónustu hjá Sveitarfélaginu Árborg.
Margrét starfar sem náms- og starfráðgjafi og forvarnarfulltrúi við Menntaskólann á Ísafirði og hefur víðtæka þekkingu á skólamálum, náms- og starfsráðgjöf, fræðslu og stjórnun. Áður var hún kennslustjóri við Háskólasetur Vestfjarða en hún hefur einnig starfað við Árskóla á Sauðárkróki. Þá hefur hún gegnt starfi verkefnastjóra hjá sóknaráætlun Norðurlands og verið í hlutastarfi hjá Háskólanum á Hólum. Auk þess hefur Margrét Björk starfað hjá barnavernd Kópavogs og bæði haldið og sótt fyrirlestra og námskeið um ýmis málefni, m.a. hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Margrét er með MA próf í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún BA próf í félagsráðgjöf frá Den Sociale Højskole í Odense og diploma í náms- og starfráðgjöf. Hún stundar MLM nám í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun við Háskólann á Bifröst og viðbótardiplómu í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri.
Alls bárust ellefu umsóknir um starfið en ein umsókn var dregin til baka.