Margrét sæmd fálkaorðu

Margrét Frímannsdóttir við opnun fangelsisins á Bitru árið 2010. sunnlenska.is/Egill Bjarnason

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni, var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Orðuna fékk Margrét fyrir störf í opinbera þágu.

Margrét er fædd í Reykjavík 29. maí 1954 og alin upp á Stokkeyri, en kjörforeldrar hennar voru Frímann Sigurðsson, yfirfangavörður á Litla-Hrauni og Anna Pálmey Hjartardóttir húsmóðir, amma Margrétar.

Hún lauk gagnfræðaprófi og landsprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og nam við öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Margrét var oddviti Stokkseyrarhrepps 1982-1990. Hún sat á þingi sem þingmaður Suðurlands og Suðurkjördæmis í tuttugu ár, frá 1987 til 2007 fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna og sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hið opinbera, t.d. sat hún á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1989 og 1990. 

Þá var hún farsæll forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni frá 2009 til 2015.

Laddi og Páll Óskar sæmdir orðu
Fjórtán Íslendingar voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í dag, meðal annars Þórhallur Sigurðsson, leikari og tónlistarmaður, Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður og Valdís Óskarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður.

Fyrri greinGleðilegt nýtt ár!
Næsta greinMisstu bíl niður um ís