Ferðafélag Íslands stóð fyrir lýðheilsugöngum um allt land í september í tilefni af 90 ára afmæli félagsins á þessu ári. Ferðafélag Mýrdælinga var meðal þeirra sem tók þátt í göngunum.
Boðið var upp á fjórar göngur, alla miðvikudaga í september og heppnuðust þær mjög vel.
„Allar ferðirnar voru um Víkina en þrátt fyrir að Víkin sé lítið þorp þá er margt að skoða og lítið mál að setja upp fjórar göngur. Leiðsögumenn í þessum ferðum voru allt heimamenn eða ættaðir úr Víkinni,“ sagði Guðjón Þorsteinn Guðmundsson, formaður Ferðafélags Mýrdælinga, í samtali við sunnlenska.is.
„Alls mættu um 80 manns í allar göngurnar sem er frábær mæting og virkilega gaman en þess má til gamans geta að allt voru þetta kvenskörungar sem sáum um leiðsögnina,“ bætir Guðjón við en göngustjórar voru Áslaug Einarsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Margrét S. Guðjónsdóttir og Æsa Guðrúnardóttir og vill Ferðafélag Mýrdælinga þakka þeim fyrir.
Lýðheilsugöngurnar voru einn af hápunktunum í afmælisdagskrá Ferðafélags Íslands og var tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá lýðheilsugöngunum í Vík.