Margt af því besta sem við borðum eru gerjaðar vörur

Bjarki og Gunnhildur í veitingasalnum í Skálholti. Ljósmynd/skalholt.is

Bragginn Studio í Birtingaholti í Hrunamannahreppi hefur staðið að námskeiðaseríu sem heitir „Art of food“. Bjarki Sól og Erna Elínbjörg hafa staðið að þessari seríu en eru núna komin í samstarf við Hótel Skálholt.

Bjarki ásamt frænku sinni Gunnhildi Helgu Gunnarsdóttur, eru þar nýir eigendur og sjá nú um alla gistingu og veitingar á staðnum. Markmiðið með námskeiðaseríunni er að fá helstu matarsérfræðinga heims hingað til landsins til að kenna listir sínar.

„Við höfum lagt áherslu á að fá fólk sem er færast á sínu sviði í matargeiranum sem hefur reynslu í kennslu og leggjum við upp úr því að þetta sé fólk sem brennur fyrir að miðla sinni sérþekkingu,“ segir Bjarki um kennarana sem eru að koma.

Ljósmynd/Aðsend

Núna í febrúar er von á Sandor Katz sem er vel þekktur um allann heim fyrir súrkálsgerð og allir sem að hafa sökkt sér í þau fræði ættu að þekkja. Einnig er von á Meridith Leigh þann 14. maí næstkomandi, en hún hefur rannsakað vinnslu á kjöti með sértaka áherslu á gerjun.

Bjarki segir að margt af því besta sem við leggjum okkur til munns daglega séu gerjaðar vörur eins og vín, bjór, ostar, pylsur, harðfiskur, brauð og súrkál. Hann vill með þessum námskeiðum gera fólki kleift, oft með einföldum hætti, að auka lífsgæði sín þegar kemur að vinnslu á íslensku hráefni.

Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á auknum gæðum á íslensku hráefni og hægt er að næla sér í sæti á námskeiðin á heimasíðu Braggans.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBjarki og Ómar meðal tíu efstu
Næsta grein169 í einangrun á Suðurlandi